Um okkur
Fell er stytting úr nafninu Kvígindisfell sem er heiti á fellinu fyrir ofan bæinn. Þar hefur verið búið og þaðan róið á fiskimið allt frá landnámsöld. Kvígindisfell liggur utarlega við norðanverðan Tálknafjörð í Vestur-Barðastrandasýslu. Núverandi eigendur eru fjögur systkini, afkomendur síðustu bændanna sem þar stunduðu búskap.
Faðir systkinanna, Magnús Guðmundsson (1931-2016) var einn af sautján systkinum sem öll fæddust á Felli á árunum frá 1917-1943. Móðir systkinanna, Halldóra Bjarnadóttir (1935- 2012), var ættuð frá Bíldudal og þau hjónin voru sauðfjárbændur á Felli í yfir fimmtíu ár. Í dag er Fell fyrst og fremst skógræktarjörð en enginn annar búskapur er á jörðinni. Heilmikill skógur þekur nú stóran hluta gömlu túnanna og setur hlýlegan svip á allt umhverfið kringum bæinn.
Eigendur að Felli eru
Aðalsteinn Magnússon
Bjarni Magnússon
Hugrún Magnúsdóttir
Lilja Magnúsdóttir
Hvar erum við
Við erum staðsett 8km utan við þorpið
Dvalarstaður fyrir listamenn
Sauðfjárbúskap lauk á jörðinni árið 1999 og skógrækt hófst þar árið 2000. Árið 2016 stofnuðu systkinin með sér félag um jörðina og ákváðu að koma þar upp aðstöðu fyrir lista- fræði- og vísindamenn.
Gamla íbúðarhúsið sem byggt var á fjórða áratug síðustu aldar var endurnýjað og hýsir það nú fjögur svefnherbergi og litla bókastofu. Í framhaldi af húsinu var byggt nýtt hús sem hýsir eldhús, borðstofu og dagstofu með óviðjafnanlegu útsýni út á fjörðinn og Patreksfjarðarflóa.
Milli gamla og nýja hússins er tengibygging með forstofu, salernum, baði, þvottahúsi og geymslu.
Austan megin við húsin er gengt út á stóran pall bæði úr eldhúsi og baðherbergi en þar nýtur sólar á sumrin frá morgni og langt fram á dag. Á pallinum er heitur pottur og aðstaða til að grilla.
Vestan megin við húsin er steypt stétt þar sem hægt er að njóta kvöldsólar og sólarlags með útgengi jafnt úr forstofu sem dagstofu. Sólar nýtur ekki á Felli í tvo mánuði að vetri til. Norðan við húsið eru bílastæði þar sem m.a. er hægt að hlaða rafmagnsbíla.
Stór og mikil útihús standa á hæð vestan við íbúðarhúsið en þar er stefnt að því á næstu árum að koma upp aðstöðu fyrir myndlistar- og tónlistarmenn.
Mjög gott netsamband er á Felli en farsímasamband aðeins utanhúss sem stendur. Hægt er að nota heimasíma.
Húsin eru hituð upp með rafmagni en í gólfum í nýja húsinu er notast við jarðvarma sem fæst úr borholu á landareigninni sem skilar 30 gráðu heitu vatni.
Allar framkvæmdir við húsin fóru fram á árunum 2020 - 2022.